Skoðun

Icesave-frumvarpið til al­mennings

Icesave-frumvarpið er úr höndum Alþingis. Á www.kjosa.is er verið að safna undirskriftum við áskorun til forseta Íslands um að synja frumvarpinu staðfestingar þannig að almenningur geri út um málið í þjóðaratkvæða¬greiðslu. Meginrökin eru þríþætt:

Fjárskuldbindingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðin gangist undir er fordæmalaus, bæði stærð skuldbindingarinnar og hvernig til hennar var stofnað. Í öðru lagi á almenningur kvölina af icesave-hneykslinu, hvort sem ríkisábyrgðinni verður hafnað eða hún samþykkt. Í þriðja lagi virðist fullreynt að ná sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um málið eftir hefðbundnum leiðum.

Sé litið til ástandsins í samfélaginu, þyngjast enn rökin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríkir vantraust á stjórnmálamönnum, embættismönnum og stjórnsýslustofnunum. Líklega fordæmalaust í „vestrænu lýðræðisríki". Stjórnmálastéttin hefur að formi til umboð þjóðarinnar í málinu, en ekkert umfram það. Icesave-krísan er orðin að táknmynd hrunsins og almenningur verður að fá að gera út um hana sjálfur. Að öðrum kosti verður icesave-gremjan viðvarandi næstu árin til stórkostlegs skaða fyrir samfélagið. Farsæl niðurstaða er sú sem þjóðin nær sátt um. Niðurstaða sem magnað ósætti ríkir um er röng.

Forsetaembættið getur ekki tekið afstöðu til málsins. Embættið getur aðeins gert þjóðinni kleift að eiga síðasta orðið. Aumt væri að gefa upp á bátinn, baráttulaust, stjórnarskrárvarinn rétt sem almenningur á til þess að taka mál í sínar hendur. Þegar þetta er ritað hefur hátt á fjórða þúsund manns skorað á forseta Íslands að vísa málinu „í okkar hendur". Það eru um 1,5% kjósenda, en á Ítalíu og í Sviss, til dæmis, myndi það duga ríflega til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál.

Áskorunin er sett fram í trausti þess að forseti Íslands fallist á röksemdirnar fyrir þjóðaratkvæða¬greiðslu um málið. Við vonum samt og treystum á framtakssemi almennings - þeirra munu borga icesave-reikninginn. Takið undir áskorunina. Tíminn er naumur.

Höfundur er talsmaður „Í okkar hendur" á vefsíðunni www.kjosa.is.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×