Körfubolti

Turkoglu tryggði Orlando sigurinn

Hedo Turkoglu fagnar sigurkörfu sinni fyrir Orlando
Hedo Turkoglu fagnar sigurkörfu sinni fyrir Orlando AP

Orlando hefur jafnað metin í 2-2 í einvígi sínu við Philadelphia í úrslitakeppni NBA deildarinnar eftir góðan útisigur í nótt. Þá er Houston komið í góð mál 3-1 gegn Portland.

Það var tyrkneski leikmaðurinn Hedo Turkoglu sem var hetja Orlando í leiknum í nótt þegar hann skoraði sigurkörfu liðsins með þriggja stiga skoti þegar sekúnda var eftir og tryggði Orlando 84-81 sigur. 

Orlando hefur þar með náð heimavallarréttinum aftur í einvíginu, sem er hvergi nærri búið. Dwight Howard var bestur hjá Orlando með 18 stig og 18 fráköst en Andre Iguodala skilaði 13 stigum, 11 stoðsendingum og 7 fráköstum hjá Philadelphia.

Houston er komið í mjög góð mál gegn Portland eftir 89-88 sigur á heimavelli í fjórða leik liðanna í nótt. Houston er yfir 3-1 í einvíginu og vantar einn sigur enn til að komast í aðra umferð. Houston hefur tapað sjö seríum í röð í úrslitakeppni.

Yao Ming skoraði 21 stig og hirti 12 fráköst fyrir Houston og Luis Scola skoraði 17 stig, en Brandon Roy skoraði 31 stig fyrir gestina.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×