Fótbolti

Þrír Íslendingar á skotskónum í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ari Freyr Skúlason skoraði fyrir GIF Sundsvall í kvöld.
Ari Freyr Skúlason skoraði fyrir GIF Sundsvall í kvöld.
Fjölmargir Íslendingar voru í eldlínunni með liðum sínum á Norðurlöndunum í kvöld.

Eyjólfur Héðinsson skoraði eina mark GAIS er liðið tapaði fyrir IFK Gautaborg á útivelli. Hallgrímur Jónasson var á bekknum hjá GAIS en Guðjón Baldvinsson var ekki í hópnum.

Ragnar Sigurðsson og Hjálmar Jónsson léku báðir allan leikinn fyrir Gautaborg en Theodór Elmar Bjarnason kom ekki við sögu.

Gunnar Þór Gunnarsson skoraði eina mark Norrköping sem gerði 1-1 jafntefli við Ljungskile í sænsku B-deildinni. Hann var tekinn af velli á 89. mínútu.

Þá skoraði Ari Freyr Skúlason eitt marka GIF Sundsvall sem vann 3-2 sigur á Syrianska í sömu deild. Hannes Þ. Sigurðsson kom ekki við sögu hjá Sundsvall.

Einn leikur fór fram í norsku úrvalsdeildinni í kvöld er Vålerenga vann 3-1 sigur á Viking. Indriði Sigurðsson og Birkir Bjarnason léku báðir allan leikinn fyrir Viking sem eru í tíunda sæti deildarinnar með 34 stig eftir 27 leiki.

Rúrik Gíslason lék allan leikinn er OB vann 2-1 sigur á Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Með sigrinum kom OB sér á topp deildarinnar en liðið er með eins marks forystu á Esbjerg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×