Íslenski boltinn

Reykjavíkurmeistaratitilinn undir í Egilshöllinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra María Stefánsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Dóra María Stefánsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir Mynd/Daníel

Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar KR hafa mæst í mörgum úrslitaleikjum síðustu ár í kvennafótboltanum og fyrsti úrslitaleikur liðanna á nýju ári verður í Egilshöllinni klukkan 19.00 í kvöld.

Liðin mætast þá í lokaumferð Reykjavíkurmóts kvenna en fyrir leikinn eru félögin efst og jöfn. Markatala Vals er samt miklu betri og dugir Hlíðarendastúlkum því jafntefli til þess að tryggja sér titilinn.

Valsstúlkur eiga titil að verja en þessi tvö félög, Valur og KR, eru þau einu sem hafa unnið Reykjavíkurmeistaratitilinn í kvennaflokki frá því að fyrst var keppt um hann árið 1982. Valur vann hann í sautjánda sinn í fyrra en KR hefur unnið Reykjavíkurmeistaratitilinn tíu sinnum þar af síðast 2006 og 2007.

Bæði liðin hafa breyst mikið frá síðasta tímabili þar sem margar landsliðskonur úr báðum þessum liðum eru að reyna fyrir sér í sænsku deildinni. KR er líka með nýjan þjálfara, Gareth O´Sullivan, og þá er Freyr Alexandersson nú einn með Valsliðið eftir að hafa þjálfað það með Elísabetu Gunnarsdóttur á síðasta tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×