Viðskipti erlent

Hráolíuverð hækkar lítillega

Dælt á bílinn. Verð á eldsneyti hefur hækkað víða um heim samhliða snarpri verðhækkun á hráolíu.
Dælt á bílinn. Verð á eldsneyti hefur hækkað víða um heim samhliða snarpri verðhækkun á hráolíu. Mynd/AFP

Verð á framvirkum samningum á hráolíu hækkaði um 1,4 prósent á bandarískum fjármálamarkaði í nótt og fór í 133,13 dali á tunnu. Vísbendingar eru um að dregið hafi úr olíubirgðum í Bandaríkjunum.

Olíuverðið lækkaði um þrjá dali á tunnu í gær og fór í rúman 131 dal. Verðið rauk upp um ellefu dali á tunnu á föstudag í síðustu viku, fór í 139,12 dali á tunnu og hefur aldrei verið hærra. Það hefur almennt lækkað um rúm fimm prósent síðan þá.

Inn í verðþróunina í gær spilar hækkun á gengi bandaríkjadals og fyrirhuguð rannsókn bandaríska fjármálayfirvalda á mikilli verðhækkun á hráolíu upp á síðkastið.

Að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar eru líkur á að olíubirgðir í Bandaríkjunum hafi dregist saman um 1,5 milljónir tunna á milli vikna. Gangi það eftir er þetta fjórða vikan í röð sem dregur á birgðir. Bandaríska orkumálaráðuneytið birtir upplýsingar um birgðastöðuna síðar í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×