Viðskipti erlent

Lægra olíuverð hækkaði hlutabréfin vestanhafs

Gengi hlutabréfa hækkaði almennt á fjármálamarkaði í Bandaríkjunum í dag eftir að heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um þrjá dali á tunnu. Þá jókst sala á nýju húsnæði óvænt á milli mánaða.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu fór í 129 dali á tunnu á fjármálamörkuðum vestanhafs en það er sex dölum lægra en í síðustu viku þegar verðið fór í hæstu hæðir.

Sala á nýju húsnæði jókst um 3,3 prósent í apríl. Þetta var talsvert óvænt niðurstaða, að sögn fréttastofu Associated Press. Til samanburðar dróst salan saman um heil ellefu prósenta á milli mánaða í mars.

Litlu skipti um þróunina á hlutabréfamarkaði í dag að birtar voru tölur sem sýndu að verð á húsnæði lækkaði um heil 14,1 prósent á fyrsta fjórðungi ársins í Bandaríkjunum frá sama tímabili í fyrra og hefur fasteignaverð ekki verið lægra síðan árið 1988.

Þessi þróun leiddi til nokkurrar bjartsýni á bandarískum hlutabréfamörkuðum í dag. Tóku fjárfestar því veskið og fjárfestu í hlutabréfum á ný. Þetta leiddi til nokkurrar hækkunar. Til samanburðar var talsverð lækkun á verði hlutabréfa í síðustu viku og fór fjárfestar fremur svartsýnir inn í langa liðna helgi.

Dow Jones-hlutabréfavísitlaan hækkaði um 0,55 prósent en Nasdaq-vísitalan um heil 1,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×