Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan niður um rúmt prósent - annan daginn í röð

Forráðamenn Eik banka heilsa Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallarinnar, við skráningu bankans á markað fyrir rúmu ári.
Forráðamenn Eik banka heilsa Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallarinnar, við skráningu bankans á markað fyrir rúmu ári.

Gengi hlutabréfa í hinum færeyska Eik banka féll um 6,2 prósent í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta fall dagsins sem litaðist af rauðum lit lækkunar á hlutabréfamarkaði. Þetta er jafnframt annar dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan lækkar um rúmt prósent.

Þá féll gengi bréfa í Existu um 4,79 prósent í dag og Eimskipafélagsins um 4,64 prósent. Gengi bréfa í Straumi og Century Aluminum féll um rúm 2,5 prósent.

Alfesca, Atorka, Glitnir og Marel lækkuðu um rúmt prósent en önnur félög fóru niður um tæpt prósent.

Ekkert félag hækkaði á sama tíma.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,18 prósent og er þetta annar dagurinn í röð sem vísitalan lækkar um meira en prósentustig á milli daga en í gær fór hún niður um rúm 1,3 prósent. Vísitalan stendur nú í 4.121 stigi.

Lækkunin hér er í svipuðum takti og á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Þeir hafa þó lækkað talsvert meira. 

FTSE-vísitalan í Bretlandi féll um rúm 2 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi féll um 3,0 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi féll jafn mikið. Báðar helstu vísitölur Bandaríkjanna hafa á sama tíma fallið um rétt rúm tvö prósent frá upphafi viðskiptadagsins.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×