Fótbolti

Xavi: Ábyrgðin hjá leikmönnum, ekki Rijkaard

NordcPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Xavi hjá Barcelona hefur tekið upp hanskann fyrir þjálfarann Frank Rijkaard, daginn eftir að tilkynnt var að Hollendingurinn láti af störfum í sumar.

Tímabilið hefur verið ein samfelld sorgarsaga hjá Barcelona og forseti félagsins fékk nóg þegar liðið steinlá 4-1 gegn Real Madrid á dögunum.

Xavi segir að hrakfarir Barcelona í vetur skrifist frekar á leikmennina en Rikjaard þjálfara.

"Það eru leikmennirnir sem eiga að axla ábyrgð á þessu. Við hefðum geta gert betur og þá værum við ekki í þessari stöðu. Rijkaard var góður og hjálpsamur þjálfari sem benti okkur á að það væri í okkar höndum og vera atvinnumenn - við ættum að sjá um þetta," sagði Xavi.

"Kröfurnar eru miklar hjá þessu félagi og tvö ár án titils er líklega það sem gerði útslagið fyrir Rijkaard. Hann á samt hrós skilið og kom einstaklega vel fram við okkur, ekki bara sem leikmenn," sagði miðjumaðurinn.

Hann vill þó ekki meina að Barca hafi gengið illa af því menn hafi ekki verið að leggja sig fram. "Kannski vorum við ekki nógu góðir, en ég á erfitt með að leikmaður sem spilar fyrir besta lið heims geti ekki fundið það hjá sér að leggja sig allan fram og klæðast treyjunni með stolti," sagði Xavi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×