Viðskipti erlent

Spá minni eftirspurn eftir olíu

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði um rétt rúma þrjá bandaríkjadali á tunnu á bandarískum fjármálamörkuðum í dag og endaði í 131,31 dal á tunnu. Þetta er um 8,7 dala lækkun frá því undir lok síðustu viku þegar verðið fór í 139 dali sem er hæsta verð sem sést hefur verið.

Bandaríska orkumálaráðuneytið birti í dag spá um minni eftirspurn eftir eldsneyti í Bandaríkjunum í skugga hás verðlags á árinu. Spáin á stærstan þátt í því að verðið lækkaði en inn í málið spilar styrking bandaríkjadals á milli daga, að sögn fréttastofu Associated Press.

Í spánni kemur fram að eftirspurn eftir olíu muni dragast saman um 240 þúsund tunnur á dag á árinu, sem er talsvert meira en fyrri spár hljóðuðu upp á. Ráðuneytið hafði í fyrri spá sinni reiknað með óbreyttri eftirspurn frá síðasta ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×