Viðskipti erlent

Moss Bros fer úr hagnaði í tap

Maður í fötum frá Moss Bros.
Maður í fötum frá Moss Bros.

Breska herrafataverslunin Moss Bros tapaði 1,4 milljónum punda, jafnvirði rúmra 207 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaðurinn 5,1 milljónum punda í hitteðfyrra.

Vöxtur var enginn í undirliggjandi starfsemi verslunarinnar á tímabilinu . Á fyrstu vikum ársins nemur vöxturinn hins vegar 0,9 prósentum, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Í tilkynningunni segir að afkoman sé í takti við væntingar stjórnenda og endurspegli hún erfiðar aðstæður í breskri smásöluverslun nú um stundir. Bæði hafi dregið úr tekjum með sölu á herrafatnaði auk þess sem hækkun raforkuverðs og fleiri slíkir þættir sem kallað hafi á aukin útgjöld hafi sett skarð í afkomuna. Árið verður krefjandi, að mati stjórnenda.

Baugur gerði í enda febrúar yfirtökutilboð í Moss Bros upp á 42 pens á hlut og hefur félagið rýnt í bækur verslunarinnar. Gengi bréfa í Moss Bros hefur hækkað um ellefu prósent síðan þá og stendur í 46,75 pensum á hlut.

Verslunin hefur ákveðið að greiða ekki út arð á meðan yfirtökutilboðið er í gildi. Reiknað var með því að arðurinn gæti numið hálfu pensi á hlut. Hins vegar verði 1,3 pens á hlut greidd út verði gengið að yfirtökutilboði Baugs. Til samanburðar nam arðgreiðsla Moss Bros 1,8 pensum á hlut til hluthafa í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×