Innlent

Fjöldi manna féll fyrir aprílgabbi Stöðvar 2

Fjöldi landsmanna hljóp apríl eftir að fréttastofa Stöðvar tvö sagði frá því í gær að Vodafone hefði landað samningi við Apple um sölu á iPhone símanum. Það var aprílgabb. Enginn iPhone sími er til sölu í verslunum Vodafone.

Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá því í gær að í kjölfar samnings Vodafone og Apple hefðu komið sending af 500 iPhone símum til landsins og að þeir yrðu til sölu í verslun Vodafone við Skútuvog og á Akureyri á meðan birgðir entust.

Þetta var að sjálfsögðu alrangt. Símarnir loguðu í þjónustuveri Vodafone þar sem starfsfólki var uppálagt að svara fyrirspurnum á þann veg að ekki væri hægt að taka frá símtæki. Þá var starfsfólk hvatt til að hlera hvaðan menn væru að hringja og þeim sem bjuggu utan borgarmarkanna var bent á að líta á dagatalið áður en þeir legðu af stað. Starfsmenn Vodafone tóku fullan þátt í glensinu og fréttastofan þakkar þeim samstarfið.

Nokkrir hlupu apríl alla leið inn í búðina á Akureyri. Í Reykjavík var mikil umferð á bílastæðinu við Skútuvog og fjöldi manns kom alla leið inn í búðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×