Fótbolti

Real Madrid styrkti stöðu sína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Raul fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Raul fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Real Madrid vann í kvöld góðan sigur á Espanyol, 2-1, eftir að hafa lent marki undir í fyrri hálfleik.

Real Madrid var betri aðilinn í leiknum og kom markið gegn gangi leiksins. Espanyol fékk hornspyrnu sem var tekin stutt og kom sendingin á fjarstöngina þar sem Valdo, fyrrum leikmaður Real, skallaði knöttinn í markið.

En Madrídingar náðu að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks. Higuain var þar að verki eftir sendingu Marcelo frá vinstri vængnum.

Það var svo Raul sem skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Hann slapp framjá Jarque sem braut svo á honum og dæmdi dómarinn umsvifalaust víti.

Tamudo fékk svo að líta rauða spjaldið undir lok leiksins er hann fékk tvö gul spjöld á tveimur mínútum í uppbótartíma.

Real Madrid er því aftur komið með sex stiga forystu á Barcelona sem á leik til góða. Börsungar mæta Villarreal annað kvöld.

Það ætti að verða erfiður leikur þar sem Villarreal er í þriðja sæti deildarinnar en liðið er þó sjö stigum á eftir Barcelona.

Espanyol er í fimmta sætinu með 42 stig, 20 stigum á eftir Real Madrid.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×