Sport

Góð byrjun íslenska kvennaliðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir er í íslenska landsliðinu.
Ragna Ingólfsdóttir er í íslenska landsliðinu. Mynd/GVA
Ísland vann í dag góðan sigur á Ítalíu í kvennaflokki á Evrópumeistaramóti landsliða í badminton.

Viðureigninni er reyndar ekki lokið en Ísland hefur þegar unnið þrjár viðureignir sem dugir til sigurs.

Ragna Ingólfsdóttir byrjaði á því að vinna Agnese Allegrini í morgun í spennandi viðureign, 2-1. Fyrstu lotuna vann Ragna í bráðabana, 23-21. Þá vann sú ítalska, 21-17, en Ragna vann oddalotuna, 21-14.

Ding Hui vann svo Tinnu Helgadóttur örugglega, 21-14 og 21-8.

En Sara Jónsdóttir svaraði um hæl með sigri á Ira Tomio, 21-11 og 21-8.

Þær Ragna og Katrín Atladóttir unnu svo sigur í tvíliðaleik á þeim Tomio og Claudiu Gruber, 21-10 og 21-13.

Nú stendur yfir síðari tvíliðaleikurinn en þar mæta þær Sara og Tinna þeim Allegrini og Hui.

Keppt er í sjö riðlum á mótinu og fer efsta liðið úr hverjum riðli áfram. Á morgun mætir Ísland liði Wales og þá Þýskalandi á fimmtudaginn.

Síðar í dag hefur karlalandsliðið keppni og mætir Rússum í fyrstu umferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×