Erlent

Fljótfærni að McCann hjónin fengu réttarstöðu grunaðra

McCann hjónin fyrir utan kirkjuna í Praia da Luz þar sem þau báðust reglulega fyrir.
McCann hjónin fyrir utan kirkjuna í Praia da Luz þar sem þau báðust reglulega fyrir. MYND/AFP
Alipio Ribeiro yfirmaður rannsóknarlögreglu Portúgals segir að rannsóknarlögreglumenn hafi verið of fljótir á sér að skilgreina foreldra Madeleine McCann sem grunaða í málinu. Kate og Gerry McCann fengu réttarstöðu grunaðra fjórum mánuðum eftir að dóttir þeirra hvarf úr sumarleyfisíbúð í Praia da Luz í Portúgal.

Ribeiro leiðir rannsóknina á hvarfi Madeleine að kvöldi 3. maí. Í viðtali við portúgölsku útvarpsstöðina Renascenca sem útvarpað verður í dag sagði hann að ákveðið fljótræði hefði orðið til þess að foreldrarnir voru grunaðir opinberlega.

Clarence Mitchell talsmaður McCann hjónanna fagnaði ummælum lögreglustjórans og hvatti til að þau yrðu hreinsuð af grunsemdunum. Hann sagði ennfremur að réttarstaða þeirra sem grunaðra í málinu eyðileggði mannorð þeirra í augum umheimsins og aftraði leitinni að Madeleine.

"Fólk sem gæti haft mikilvægar upplýsingar hefur mögulega ekki gefið sig fram af því McCann hjónin liggja undir grun," sagði hann.

Ribeiro hefur verið varkár í yfirlýsingum á málinu. Þann 10. september, þremur dögum eftir að hjónin voru opinberlega grunuð, gaf hann í skyn að tæknilegar rannsóknir lögreglunnar hefðu ekki verið fullnægjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×