Fótbolti

Real og Milan úr leik í bikarnum

Robinho og félagar eru úr leik í spænska bikarnum
Robinho og félagar eru úr leik í spænska bikarnum NordicPhotos/GettyImages

Nokkrir leikir voru á dagskrá í bikarkeppnunum á Spáni og Ítalíu í gærkvöld og þar bar hæst að stórveldin Real Madrid og AC Milan féllu úr leik. Hvorugt liðanna tefldi reyndar fram sínum sterkustu mönnum.

Real Madrid þurfti að sætta sig við 1-0 tap heima fyrir Real Mallorca í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum og tapaði því samanlagt 3-1. Real var miklu betri aðilinn í leiknum en náði ekki að skora þrátt fyrir að hafa skipt þeim Van Nistelrooy og Robinho inn á völlinn í síðari hálfleik.

Bernd Schuster þjálfari var skiljanlega skúffaður eftir leikinn en sagði sína menn líklega ekki hafa getað spilað betur - "Við gátum bara ekki skorað," sagði Þjóðverjinn.

Svipaða sögu var að segja af Evrópumeisturum AC Milan, en liðið gerði 1-1 jafntefli við Catania í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitunum. Catania vann fyrri leikinn á San Siro 2-1 og er því komið áfram í fjórðungsúrslitin.

Roma er líka komið þangað eftir 4-0 sigur á Torino í gær, en liðið tapaði fyrri leiknum 3-1. Fyrirliðinn Francesco Totti kom inn sem varamaður hjá Roma í leiknum og skoraði eitt mark úr víti - en þetta var 200. mark hans á ferlinum fyrir Rómverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×