Erlent

Hells Angels-plága í bænum sem Hrafnhildur var myrt

MYND/AFP

Félagar í alþjóðlegu glæpasamtökunum Hells Angels hafa komið sér fyrir í smábænum Cabarete í Dóminíska lýðveldinu. Í fyrradag fannst Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir myrt á Extreme hótelinu á Cabarete ströndinni þar sem hún bjó og starfaði. Unnusti Hrafnhildar er í haldi lögreglu í tengslum við málið sem tengist ekki glæpasamtökunum.

Um er að ræða liðsmenn úr kanadískum samtökum Hells Angels en fjölmargir félagar samtakanna hafa sést á götum bæjarins, veitingarstöðum og á ströndinni en einungis 15.000 manns búa í Cabarete. Frá þessu var meðal annars greint í kanadíska fjölmiðlinum Sun Media fyrr á árinu.

Í Cabarete hefur gata verið nefnd í höfuðið á Hells Angels. Þá hefur einnig sést til liðsmanna glæpasamtakanna í ferðamannabæjunum Sosua og Puerto Plata í nágrenni Cabarete.

Hells Angels hafa skotið rótum víðsvegar um heiminn frá því að þau voru stofnuð 1948 í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Samtökin hafa verið fyrirferðamikil á Norðurlöndunum og til að mynda hafa dönsk yfirvöld þurft að hafa umtalsverð afskipti af félögum Hells Angels seinustu daga.

Hells Angels hafa reynt að koma sér fyrir á Íslandi en við komu til landsins hefur meðlimum þeirra verið snúið við á Keflavíkurflugvelli og þeir sendir með næstu flugvél til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×