Viðskipti erlent

Talsvert verðfall á Wall Street

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum féllu verulega á hlutabréfamörkuðum í dag. Fjárfestar þykja afar svartsýnir um horfur í efnahagsmálum auk þess sem ákvörðun stjórnvalda að kaupa ekki verðbréf og aðra vafninga sem hafa brennt stórt gat í efnahagsreikning banka og fjármálafyrirtækja olli miklum vonbrigðum.

Á meðal dapurra uppgjöra sem birt voru í dag var snarpur samdráttur hjá verslanakeðjunni Macy's og svartsýnar horfur í einkaneyslu, sem komu fram í afkomuspá raftækjaverslunarinnar Best Buy fyrir næsta ár.

Í ofanálag ákvað bandaríski bankinn Morgan Stanley að segja upp tíu prósentum starfsfólks í fagfjárfestingadeild bankans.

Til að bæta gráu ofan á svart tilkynnti Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að stjórnvöld muni ekki nýta sjö hundruð milljarða dala áætlunina, sem samþykkt var fyrir nokkru, til að kaupa verðbréf banka og fjármálafyrirtækja. Í staðinn verði keypt hlutabréf í sjálfum bönkunum.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um 4,73 prósent og Nasdaq-vísitalan um 5,17 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×