Fótbolti

Benitez hefur áhyggjur af meiðslum lykilmanna

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool var ekki ánægður með 1-1 jafnteflið sem hans menn gerðu við Atletico í Madríd í kvöld. Þá hefur hann áhyggjur af meiðslum nokkurra lykilmanna fyrir mikilvægan leik gegn Chelsea í deildinni um næstu helgi.

"Ég hélt að við gætum spilað betur en þetta. Við fengum færi og ef maður klárar þau ekki, er manni refsað líkt og í kvöld," sagði Benitez um jöfnunarmark heimamanna í Atletico.

"Það er jákvætt að vera með sjö stig í riðlinum og það er ekki slæm staða, en það er auðvitað súrt að fá á sig jöfnunarmark á 83. mínútu," sagði Benitez.

Hann hefur áhyggjur af meiðslum nokkurra manna í liði sínu, en hann skipti bæði Steven Gerrard og Robbie Keane af velli. Þá virtist Xabi Alonso hafa meiðst líka.

"Ég held að verði í lagi með þá en við verðum að sjá til," sagði Benitez.

Robbie Keane sagðist í viðtali við Sky eiga við veikindi að stríða. "Ég teygði eitthvað á náranum eftir 20 mínútna leik, en ég held að það sé ekki alvarlegt. Svo var ég dálítið slappur líka og það hjálpaði ekki," sagði Keane.

Hann fór illa með dauðafæri skömmu eftir að hann skoraði fyrir Liverpool. "Það var mikill vindur, en ég get ekki afsakað mig, ég hefði átt að nýta þetta færi," sagði Írinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×