Körfubolti

Fyrsta tap Hamars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingibjörg Elva skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld.
Ingibjörg Elva skoraði 21 stig fyrir Keflavík í kvöld.

Hamar tapaði í kvöld sínum fyrsta leik í Iceland Express deild kvenna er liðið tapaði fyrir Keflavík á heimavelli, 90-76.

Hamar er þó enn í efsta sæti deildarinnar með tíu stig en Haukar eru nú einnig með tíu stig eftir sigur á Grindavík í kvöld, 66-58. Þá vann KR sigur á Val, 59-57, en allir leikir kvöldsins unnust á útivelli.

Jafnræði var með liðum Hamars og Keflavíkur í fyrsta leikhluta en eftir það tóku Keflvíkingar öll völd í leiknum. Staðan í hálfleik var 52-36, Keflavík í vil.

Birna Valgarðsdóttir skoraði 22 stig fyrir Keflavík og tók tíu fráköst. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir var með 21 stig og tíu fráköst. Svava Ósk Stefánsdóttir átti einnig góðan leik en hún skoraði tólf stig, gaf níu stoðsendingar og tók sjö fráköst.

LaKiste Barkus var stigahæst hjá Hamar með 25 stig, Íris Ásgeirsdóttir skoraði nítján stig og Hafrún Hálfdánardóttir sautján auk þess sem hún tók þrettán fráköst.

Haukar náðu tíu stiga forystu í öðrum leikhluta gegn Grindavík í kvöld og létu forystuna aldrei af hendi. Ragna Brynjarsdóttir skoraði 22 stig og tók sextán fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 20 stig fyrir Hauka.

Hjá Grindavík var Petrúnella Skúladóttir stigahæst með tólf stig.

Spennan var mikil í leik Vals og KR. KR byrjaði betur í leiknum og var með frumkvæðið í fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var 32-29, KR í vil. Valur náði svo yfirhöndinni í þriðja leikhluta og var með forystuna þegar sex mínútur voru til leikslota, 55-49. Þá skoraði KR átta stig í röð en Valur jafnaði metin þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka.

Aðeins ein karfa var skoruð á síðustu fjórum mínútum leiksins og reyndist það sigurkarfa leiksins. Guðrún Þorsteinsdóttir var þar að verki.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fór mikinn í liði KR og skoraði 31 stig. Signý Hermannsdóttir var stigahæst hjá Val með 20 stig en hún tók einnig sextán fráköst. Lovísa Guðmundsdóttir skoraði fimmtán stig og tók þrettán fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×