Viðskipti erlent

Líkur á mikilli stýrivaxtalækkun í Evrópu

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans. Mynd/AFP
Greinendur og fjármálasérfræðingar reikna flestir með mikilli lækkun stýrivaxta í Evrópu í dag. Vaxtaákvörðunardagur er víðar en hér á landi, svo sem hjá evrópska seðlabankanum og Englandsbanka í Bretlandi. Því er spáð að Englandsbanki lækki stýrivexti um eitt prósent, hundrað punkta í því augnamiði að sleppa takinu af hálsi lántakenda og blása lífi í hjól efnahagslífsins. Gangi það eftir verður það önnur vaxtalækkun bankastjórnarinnar á jafn mörgum mánuðum en við það fara stýrivextir í landi Englandsdrottningar úr 4,5 prósentum í 3,5 prósent. Fyrir vaxtalækkunina í síðasta mánuði stóðu stýrivextirnir í fimm prósentum. Breska ríkisútvarpið hefur eftir fjármálasérfræðingum að Englandsbanki grípi of seint í taumana. Hafi á það verið bent áður að bandaríski seðlabankinn greip til vaxtalækkunar fyrst fyrir rúmu ári og hafa vextir þar í landi farið úr 5,25 prósentum niður í eitt prósent. Vextir í Englandi voru hins vegar lækkaðir nýverið. Þá er því spáð að evrópski seðlabankinn lækki stýrivexti um meira en 50 punkta. Áður var reiknað með 50 punkta lækkun. Sé hins vegar miðað við stöðu efnahagsmála víða um þessar mundir er gert ráð fyrir mikilli vaxtalækkun þar líkt og í Bretlandi. Gangi það eftir fer vaxtastig á evrusvæðinu niður í 3,25 prósent. Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti um sex prósent í enda október og hélt þeim óbreyttum í átján prósentum í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×