Enski boltinn

Beðið eftir Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United.
Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Forráðamenn Real Madrid segjast bíða eftir því að Ronaldo lýsi yfir áhuga sínum að leika með félaginu áður en það fer í samningaviðræður við Manchester United.

Þetta mál hefur lengi verið áberandi í fjölmiðlum en Real hefur margoft lýst yfir áhuga sínum að fá Ronaldo í sínar raðir.

Manchester United gekk svo langt að kvarta undan framferði Real til Alþjóða knattspyrnusambandsins sem mun þó ekki grípa til neinna aðgerða vegna kvörtunarinnar.

„Við erum að bíða eftir því að Ronaldo lætur í sér heyra. Um leið og hann segist vilja spila fyrir Real Madrid munu viðræður hefjast milli félaganna," sagði Miguel Angel Arroyo, einn forráðamanna Real Madrid.

„Við myndum gjarnan vilja komast að samkomulagium kaupverð við Manchester United, það er að segja ef þeir vilja selja og það á viðráðanlegu verði."

Bernd Schuster, knattspyrnustjóri félagsins, segir að Real Madrid muni annars hafa hægt um sig á leikmannamarkaðnum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×