Fótbolti

Ronaldo ætlar að bæta fyrir vítaspyrnuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leiknum í kvöld.
Cristiano Ronaldo í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Cristiano Ronaldo lofaði því eftir leik Barcelona og Manchester United að hann ætlaði að skora í síðari leik liðanna í næstu viku.

Ronaldo misnotaði vítaspyrnu strax á þriðju mínútu leiksins en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Hefði hann skorað hefði það verið hans 39. mark á tímabilinu.

Hann sagði í viðtali eftir leik að hann hefði ekki breytt um vítaspyrnutækni.

„Ég breytti engu. Ég hef skorað nokkrum sinnum á þessari hlið en ég skoraði ekki í dag."

„Það er ekkert mál. Nú ætla ég að skora í Manchester."

Hann sagði að hann hefði átt að fá aðra vítaspyrnu síðari í fyrri hálfleik er hann féll í samskiptum sínum við Rafael Marquez.

„Mér fannst hann koma við mig. En dómarinn dæmdi ekki víti. Ég veit ekki af hverju, ég skil það ekki."

Hann sagði að leikurinn sjálfur hefði verið mjög jafn og erfiður.

„Barcelona spilaði mjög vel og héldu boltanum vel. Þeir sköpuðu sér þó ekki mörg færi. En mér fannst við verjast vel. 0-0 eru góð úrslit."

Hann sagði um síðari leikinn að United myndi hafa yfirhöndina á heimavelli.

„Ég held að við munum vinna leikinn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×