Viðskipti erlent

Gengi AMR féll um 25 prósent

Við eitt af innritunarborðum American Airlines í Bandaríkjunum.
Við eitt af innritunarborðum American Airlines í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa í bandarísku flugrekstrarsamstæðunni AMR, móðurfélagi American Airlines, umsvifamesta flugfélagi Bandaríkjanna, féll um 25 prósent á hlutabréfamarkaði í gær eftir snarpa verðhækkun á hráolíu.

Olíuverðið stökk upp um fjóra dali á tunnu og fór í rúma 134 dali, sem er met. Það var svo slegið aftur í nótt þegar verðið fór í 135 dali á tunnu.

Gengi margra flugfélaga og rekstrarfélaga sem byggja afkomu sína að stórum hluta á olíu lækkaði sömuleiðis talsvert á bandarískum hlutabréfamarkaði í gær.

FL Group var um tíma á síðasta ári einn stærsti hluthafi AMR. Gengi bréfa í flugfélaginu endaði í gær í 6,22 dölum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan snemma í maí árið 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×