Fótbolti

Ronaldinho ekki ódýr

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldinho, leikmaður Barcelona.
Ronaldinho, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / AFP
Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að Ronaldinho fari ekki á minna en 40 milljónir evra eða 4,6 milljarða króna.

Það virðist nánast öruggt að Ronaldinho hafi spilað sinn síðasta leik með Barcelona en hann hefur átt við meiðsli að stríða og er á förum frá félaginu í sumar, ef af líkum lætur.

Laporta ætlar þó ekki að sleppa Ronaldinho ódýrt enda á hann enn tvö ár eftir af samningi sínum við félagið. „Ég get aðeins sagt að Ronaldinho er meira en 40 milljóna evra virði. Hann hefur aldrei verið til vandræða og ég er viss um að hann nær sínu fyrra formi þegar hann verður heill á nýjan leik."

„Hann þarf bara að fá nýja hvatningu. En það er ekkert öruggt að hann þurfi að fara því hann getur vel gert það hjá okkur," sagði Laporta. „Við höfum fengið mörg tilboð frá Englandi en Milan er það lið sem hefur sýnt hvað bestan áhuga."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×