Skoðun

Enn segir Guðni ó­satt

Hrannar Björn Arnarsson skrifar

umræðan

Eldhúsdagsumræður

Í eldhúsdagsumræðunum fór Guðni Ágústsson mikinn að vanda. Ýmislegt í ræðunni var greinilega aðeins hugsað til skemmtunar en í ljósi raðfullyrðinga formannsins um að ríkisstjórnin hafi svikið aldraða í lífeyrismálum er óhjákvæmilegt að líta svo á að þar hafi Guðni verið að tala í fullri alvöru. Framsóknarmenn á þingi hafa líka hver af öðrum apað vitleysuna upp eftir formanninum. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hafa þeir hins vegar látið hjá líða að rökstyðja mál sitt enda mun það reynast þeim örðugt.

Í tilefni af þessum síendurteknu ósönnu fullyrðingum er óhjákvæmilegt að undirstrika að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í lífeyrismálum hafa að sjálfsögðu verið í fullu samræmi við lög, fullu samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og staðreyndin er sú að aðgerðirnar ganga mun lengra en yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna gáfu tilefni til. Milljarðar króna renna nú til lífeyrisþega umfram þær skuldbindingar sem ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kváðu á um. Fullyrðingar um annað eru beinlínis rangar.

Hvergi í umræddum yfirlýsingum ríkisstjórna frá 2002 eða 2006 er kveðið á um að lægstu bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun dagvinnutryggingar.

Ég skora á Guðna Ágústsson, eins og ég hef áður skorað á Bjarna Harðarson, að benda á staðreyndir svikabrigslum sínum til stuðnings eða biðjast afsökunar á stóryrðunum ella.

Rangfærslur framsóknarmanna hagga ekki þeirri staðreynd að sjaldan eða aldrei hefur eins mikið verið gert í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja og á þeim skamma tíma sem Samfylkingin hefur farið með málefni lífeyrisþega. Heildarfjárhæð aukinna lífeyrisgreiðslna mun nema um 9 milljörðum króna á heilu ári og jafngildir það um það bil 17% hækkun lífeyris, miðað við síðasta ár. Á tólf ára valdatíma framsóknarmanna komust þeir ekki með tærnar þar sem Samfylkingin hefur hælana í þessum efnum.

Höfundur er aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×