Tónlist

Múm notar hljóðnema úr skriðdrekahlutum

Gunnar og hljómsveitin Múm eru að leggja lokahönd á nýja plötu.
Gunnar og hljómsveitin Múm eru að leggja lokahönd á nýja plötu.

Tónlistarmaðurinn Gunnar Örn Tynes dvaldist í sumar í hinum afskekkta Galtarvita á Vestfjörðum, en vinnur nú að upptöku nýjustu plötu hljómsveitarinnar Múm - þar sem meðal annars er notast við hljóðnema úr skriðdrekahlutum.

Tónlistarmaðurinn Gunnar Örn Tynes dvaldist í sumar um nokkurt skeið í hinum afskekkta Galtarvita á Vestfjörðum. Gunnar, sem er meðlimur í hljómsveitinni Múm, segist hafa farið að Galtarvita reglulega frá árinu 2001 til að vinna að tónlist og njóta lífsins. „Óli vinur minn keypti vitann fyrir átta árum síðan og hafði hugsað sér að nýta híbýlin sem stað þangað sem listamenn og aðrir geta komið og unnið að tónlist, við skriftir eða bara notið náttúrunnar. Umhverfið við vitann er ólýsanlegt og það er erfitt að lýsa þeirri stemningu sem þar er, maður er bara ótrúlega einn í heiminum og gjörsamlega tímalaus," segir Gunnar. Meðan á dvölinni stóð vann Gunnar að safnplötu sem á að vera til styrktar vitanum. „Ég var í vitanum í mánuð og bauð fullt af fólki að koma og vera með mér. Við unnum svo grunnvinnu að þessari styrktarplötu en kláruðum þau ekki því við ætlum að fá fleiri tónlistarmenn til að vinna með lögin. Hugmyndin er svo að gera þetta á tveggja ára fresti héðan í frá. Það er nefnilega ýmislegt sem þarf að laga og bæta og Óli hefur ekki endalaust fjármagn til þess."

Gunnar er nú komin aftur suður til þess að klára nýjustu plötu hljómsveitarinnar Múm en við upptöku plötunnar notaðist hljómsveitin meðal annars við hljóðnema búinn til úr varahlutum úr gömlum skriðdrekum. „Ég var á tónleikaferðalagi og hitti þá manninn sem smíðar þessa hljóðnema úr varahlutum. Hljóðneminn lítur eiginlega út eins og lampi frekar en hljóðnemi og hljóðið sem kemur úr honum er gamalt, lítið hljóð með suði og er mjög fallegt. Smiðurinn varaði okkur þó við að ferðast mikið með hann því þessi málmblanda er helst notuð í hernaðarskyni og getur því komið manni í vandræði," segir Gunnar að lokum og minnir á að þeir sem hafi áhuga á að dvelja á Galtarvita geta haft samband við eigandann í gegnum galtarviti.com.

sara@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.