Fótbolti

Hildebrand farinn frá Valencia

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Timo Hildebrand í leik með Valencia gegn Barcelona í febrúar síðastliðnum.
Timo Hildebrand í leik með Valencia gegn Barcelona í febrúar síðastliðnum. Nordic Photos / AFP

Valencia hefur komist að samkomulagi við þýska markvörðinn Timo Hildebrand um að rifta samningi hans við félagið. Er hann því laus allra mála.

Hildebrand hefur ekki komið við sögu hjá liði félagsins í langan tíma en síðan að Unai Emery tók við knattspyrnustjórn liðsins hefur Brasilíumaðurinn Renan staðið vaktina í marki Valencia. Oft hefur Hildebrand ekki komist í leikmannahóp félagsins.

Hildebrand vildi því ólmur fara frá félaginu og er nú frjálst að leita annað. Hann fór frá Stuttgart til Valencia árið 2007 og var samningsbundinn félaginu til 2010.

Hildebrand er sá markvörður sem hefur lengst haldið hreinu í þýsku úrvalsdeildinni eða í 884 mínútur. Það met setti hann með Stuttgart tímabilið 2003-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×