Viðskipti innlent

Spron upp um tæp 11 prósent

Gengi hlutabréfa í Spron rauk upp um 10,77 prósent í hækkanahrinu við upphaf viðskipta í Kauphöllinni í dag. Gengið stendur í 3,6 krónum á hlut, sem eru svipaðar slóðir og það stóð í við upphaf mánaðar. Einungis þrjú viðskipti hafa verið með bréf í Spron fyrir rúmar 313 þúsund krónur.

Gengi bréfa í bönkum og fjármálafyrirtækjum hefur hækkað mest í dag, sem er nokkuð í takti við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum eftir að tilkynnt var um yfirtöku bandarískra stjórnvalda á hálfopinberu fasteignalánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac í gær.

Exista hefur hækkað næstmest, eða um 5,8 prósent, bréf Landsbankans um 3,9 prósent, bréf Kaupþings um 2,58 prósent, Glitnis um 2,08 prósent, Straums um 1,96 prósent og Bakkavarar um 1,77 prósent.

Gengi bréfa í öðrum félögum hefur hækkað minna.

Á sama tíma hefur gengi bréfa í Eimskipafélaginu lækkað um 0,32 prósent.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,83 prósent og stendur hún í 4.173 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×