Viðskipti innlent

Bréf Eimskips sigldu niður

Gangurinn skoðaður hjá félaginu.
Gangurinn skoðaður hjá félaginu. Mynd/Teitur
Gengi hlutabréfa í Eimskipafélaginu féll um 8,2 prósent við enda viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag. Þetta er annar dagurinn í röð sem gengið tekur þvílíka dýfu en í gær fór það niður um tæp 16,5 prósent. Samanlagt fall á tveimur dögum nemur því tæpum 25 prósentum. Gengið stóð í 34,4 krónum á hlut um síðustu áramót og nemur gengisfallið því rúmum 72 prósentum á tímabilinu. Í morgun voru bréf í Eimskipafélaginu sett á athugunarlista í Kauphöllinni. Þetta var gert í tengslum við skilyrði Kauphallarinnar fyrir töku hlutabréfa til viðskipta, vegna umtalsverðrar óvissu varðandi verðmyndun vegna hættu á ójafnræði meðal fjárfesta, líkt og sagði í tilkynningu. Enn er verið að vinna að fjármögnun kaupa á XL Leisure Group en Eimskip er enn í ábyrgð fyrir 280 milljóna dala láni félagsins. Eimskip seldi XL Leisure Group í október árið 2006 fyrir 450 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 30,6 milljarða íslenskra króna á þávirði. Félagið var þá leiguflugs- og ferðaþjónustuhluta Avion Group, nú Eimskipafélagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×