Skoðun

Einkavæðingin á Alþingi í dag

Ögmundur Jónasson skrifar
Við þingfrestun í vor var fallist á að skjóta á frest afgreiðslu frumvarps Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, um nýja Sjúkratrygginga- og innkaupastofnun á heilbrigðissviði. Í greinargerð með frumvarpinu segir að það byggi á reynslu Svía og Breta. Þessar þjóðir hafi haldið út á markaðstorgið með heilbrigðisþjónustu sína en hin nýja stofnun á einmitt að auðvelda þessa vegferð. Með því að fá afgreiðslu frumvarpsins frestað sumarlangt vildu menn skapa svigrúm til að grafast fyrir um afleiðingar kerfisbreytinganna í Svíþjóð og Bretlandi. Það gekk ekki eftir. Heilbrigðisnefnd Alþingis var aldrei kölluð saman í sumar. Og ekki er að sjá að stjórnarmeirihlutinn hafi lyft litla fingri til að kynna sér málin ef undan er skilin hraðsuðuheimsókn heilbrigðisnefndar Alþingis til Stokkhólms í vikunni áður en þing kom saman. Ferðin var farin undir handarjaðri verktakafyrirtækisins sem skipuleggur markaðsvæðingarátak heilbrigðisráðherrans!

Stjórnarandstaðan hefur hins vegar notað tímann og viðað að sér upplýsingum. Hverju skyldi sú rannsóknarvinna hafa skilað? Í ljós kemur að um þróunina í Svíþjóð er engin sátt. Markaðsvæðingin í heilbrigðiskerfi Svía sætir þvert á móti vaxandi gagnrýni. Útboð í heilbrigðisþjónustunni eru á undanhaldi vegna þess að þau gáfu ekki góða raun. Frá Bretlandi hafa einnig borist varnaðarorð. Einn helsti sérfræðingur Breta á þessu sviði, Allyson Pollock, prófessor við Edinborgarháskóla, sagði í erindi sem hún flutti hér á landi að umræddu frumvarpi svipaði til löggjafar í Bretlandi frá þeim tíma sem Bretar hófu vegferðina með heilbrigðiskerfi sitt inn á markaðstorgið undir leiðsögn Margrétar Thatcher.

Grundvallarbreytingar á samfélaginu á ekki gera umræðulaust. En þegar stjórnarmeirihlutinn er annaðhvort hlynntur einkavæðingu eða einfaldlega svo latur að hann nennir ekki að kynna sér málin er úr vöndu að ráða. Það er dapurlegt til þess að hugsa að vegna sinnuleysis á Alþingi, andvaraleysis almennings og doða fjölmiðlanna kunni frjálshyggjunni að takast að eyðileggja heilbrigðiskerfið okkar. Allt til þess eins að hleypa einkavinunum öllum á garðann svo þeir geti gert heilbrigðisþjónustu landsmanna sér að féþúfu. Málið er á dagskrá Alþingis í dag.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×