Innlent

Ákæruvaldið mun krefjast tíu ára fangelsis að lágmarki

Ákæruvaldið í Færeyjum mun krefjast tíu ára fangelsisvistar að lágmarki á hendur Íslendingi sem setið hefur þar í fangelsi og einangrun svo mánuðum skiptir vegna meintrar aðildar að Pólstjörnumálinu.

Þetta segir Linda Margarete Hasselberg, saksóknari í málinu, við Fréttablaðið. Gæsluvarðhald yfir manninum rann út í gær, en hann féllst á að sitja áfram í gæslu og einangrun þar til að réttarhöldum loknum. Hann þurfti því ekki að mæta fyrir dómara, sem ella hefði orðið. Það er hins vegar á valdi saksóknara í málinu hvort honum verður haldið í einangrun til 11. apríl. Þá á að ganga dómur í málinu ef tímasetningar standast.

Á mánudag hefjast réttarhöld í málinu. Þá verður kviðdómur kallaður saman og vitnaleiðslur hefjast. Einn mannanna fjögurra sem sitja í fangelsi á Litla-Hrauni vegna Pólstjörnumálsins mun bera vitni í máli Íslendingsins. Hann fer út í lögreglufylgd eftir helgina til að mæta fyrir dóminn.

Hinn 11. apríl er svo að vænta niðurstöðu kviðdóms um sekt eða sakelysi Íslendingsins. Þeirri niðurstöðu er ekki hægt að áfrýja, að sögn saksóknara. Verði maðurinn fundinn sekur ákveða dómari og kviðdómur refsingu hans. Þeirri ákvörðun er hægt að áfrýja til æðri dómstóls.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×