Fótbolti

Koeman samþykkir að taka við Valencia

Ronald Koeman tekur við Valencia
Ronald Koeman tekur við Valencia NordicPhotos/GettyImages

Hollendingurinn Ronald Koeman segist hafa samþykkt að skrifa undir tveggja og hálfsárs samning við spænska félagið Valencia eftir að hafa hætt hjá PSV í Hollandi.

"Ég er búinn að samþykkja tveggja og hálfsárs samning munnlega en á enn eftir að skrifa undir," sagði Koeman á blaðamannafundi í kvöld.

Valencia sagði þjálfara sínum Quique Sanchez Flores upp störfum eftir 3-0 tap fyrir Sevilla á dögunum og hafði hraðar hendur með að finna eftirmann.

Framkvæmdastjóri PSV sagði það hafa verið draum Koeman að taka við liði á Spáni. "Ég talaði við hann í sumar og þá sagðist hann vilja fara til Spánar. Hann fékk tækifæri til þess nú og því var erfitt fyrir okkur að reyna að stöðva hann," sagði Jan Reker, framkvæmdastjóri PSV.

"Framkvæmdastjórn PSV ræddi við útsendara Valencia í á fimmtu klukkustund í morgun og niðurstaða liggur fyrir um bætur sem félagið fær frá Valencia," sagði Reker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×