Erlent

Tvö vitni segjast hafa séð Madeleine

Gerry McCann er sannfærður um að Madeleine hafi verið rænt.
Gerry McCann er sannfærður um að Madeleine hafi verið rænt. Mynd/ AFP
Breskur karlmaður segist hafa séð unga stúlku sem líktist Madeleine McCann í Marrakech þann níunda maí síðastliðinn, eftir meint hvarf hennar af hótelherberginu. Norsk kona fullyrðir einnig að hún hafi séð Madeleine þennan dag, samkvæmt breska blaðinu News of the World. Samvæmt blaðinu segjast báðir aðilar hafa séð stúlkuna á sama stað og á svipuðum tíma.

Upplýst hafði verið um fullyrðingar norsku konunnar. Portúgalska lögreglan hefur hins vegar aldrei gefið neitt upp um fullyrðingar breska karlmannsins. Heimildarmaður News of the World, sem er nákominn Kate og Gerry McCann, staðfesti hins vegar við blaðið að vitnið hefði gefið sig fram. Samkvæmt heimildum blaðsins var stúlkan stödd nærri Ibis hótelinu þegar maðurinn sá hana. Hann tilkynnti lögreglunni í Leicestershire um það sem hann sá og þeim upplýsingum var miðlað áfram til lögreglunnar í Morrokkó og Portúgal.

Lögreglan segir að þetta geti hugsanlega hafa verið Madeleine en ekkert geti staðfest það. Norska konan segist hins vegar vera sannfærð. "Ég er sannfærð um að þetta var Madeleine. Þetta var indæl og krúttleg stúlka. Hún stóð þarna skammt frá mér og við hliðina á henni var maður. Hún virtist sorgmædd og svolítið áttavillt," sagði konan í samtali við News of the World.

Fréttir af seinna vitninu berast einungis fáeinum dögum eftir að portúgalska lögreglan fullyrðir að hún haldi öllum möguleikum opnum í rannsókninni. McCann hjónin hafa verið grunuð um að hafa valdið dauða Madeleine og falið líkið. Þau halda sig hins vegar fast við þá frásögn að stúlkunni hafi verið rænt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×