Innlent

Skotið á skútusmyglara í fyrra

Skotárás fyrir tveimur árum á tvo af mönnunum, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, gefur innsýn í veruleika íslenska fíkniefnaheimsins en sjónarvottar lýsa árásinni sem framhjá-aksturs-skothríð.

Atburðir síðustu daga hafa vakið um slæmar minningar hjá íbúum við Burknavelli í Hafnarfirði sem í júní í fyrra urðu vitni að ótrúlegri atburðarrás í hverfi sínu. Þeir höfðu nokkru áður sent fíkniefnadeild lögreglunnar ábendingu um að eitthvað óeðlilegt ætti sér stað í húsi einu við götuna þar sem viðkoma glæsibifreiða var daglegt brauð á milli klukkan sex og sjö á morgnana. Í húsinu bjó þá Einar Jökull Einarsson sem nú situr í gæsluvarðhaldi vegna smyglskútumálsins.

Þennan júnímorgun árið 2006 var bifreið ekið að húsinu við Burknavelli, rúðan skrúfuð niður og tveimur skotum úr haglabyssu hleypt á húsið, öðru þeirra á eldhúsglugga og hinu á útidyrahurð. Inni í húsinu voru þeir Einar Jökull og Alvar Óskarsson sem einnig situr í gæsluvarðhaldi vegna smyglskútumálsins. Alvar slasaðist á höfði í árásinni. Daginn eftir ók síðan sami bíll upp að húsinu, rúðan var skrúfuð niður og molotov kokteil kastað inn um brotna eldhúsrúðuna í þeim tilgangi að kveikja eld í húsinu. Þrír menn voru síðar dæmdir í fangelsi vegna málsins og fyrir að hafa kvöldið fyrir skotárásina brotist inn heima hjá Alvari og barið hann í höfuðið með kúbeini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×