Innlent

Smyglskútan sigldi langa leið

Smyglskútan sem kom til Fáskrúðsfjarðar á fimmtudag var tekin á leigu í Bergen og þaðan siglt til ýmissa landa áður en henni var siglt hingað til lands. Íslendingnum, sem var í haldi norsku lögreglunnar, hefur verið sleppt.

Lögreglan í Stafangri í Noregi fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir Loga Frey Einarssyni sem setið hefur í haldi lögreglunnar frá því á fimmtudag sem eins og fram hefur komið í fréttum var hann handtekinn í framhaldi af aðgerðum lögreglu á Fáskrúðsfirði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Íslandi hefur ákvörðun um beiðni um framsal ekki verið tekin.

Annars miðar rannsókninni á smyglskútumálinu vel. Ítarleit í skútunni er lokið og ekki fundust frekari fíkniefni í henni. Lögreglan í Stafangri hefur kortlagt ferðir skútunnar sem tekin var á leigu í Bergen. Þaðan var henni siglt til Danmerkur, þá til Þýskalands og svo til Hollands áður en hún sneri til Stafangurs þar sem hún hafði viðdvöl. Frá Stafangri var skútunni síðan siglt til Færeyja og þá til Fáskrúðsfjarðar. Lögreglan í Stafangri gat ekki gefið upplýsingar um hverjir sigldu skútunni né hver tók hana á leigu. Þá gat hún ekki sagt hvort sama áhöfn hafi verið um borð allan tímann en eins og fram hefur komið í fréttum þá sigldu þeir Alvar óskarsson og Guðbjarni Traustason skútunni til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×