Fótbolti

Ancelotti í skýjunum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Carlo Ancelotti segir að AC Milan hefði átt skilið að vinna stærri sigur en 2-1.
Carlo Ancelotti segir að AC Milan hefði átt skilið að vinna stærri sigur en 2-1.

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, er hæstánægður með sína menn eftir 2-1 sigur á Benfica í Meistaradeildinni í kvöld. Hann hrósaði Andrea Pirlo sérstaklega fyrir hans spilamennsku.

Milan er núverandi handhafi Evrópumeistaratitilsins en sigur liðsins í kvöld hefði getað verið talsvert stærri. „Þetta var góður leikur og við spiluðum flottan fótbolta. Það var samt leiðinlegt að fá þetta mark á okkur undir blálokin. Við áttum skilið að vinna stærri sigur," sagði Ancelotti.

AC Milan lék með þriggja manna sóknarlínu þar sem Clarence Seedorf og Kaka voru fyrir aftan Filippo Inzaghi. Fyrra mark liðsins var frá Andrea Pirlo beint úr aukaspyrnu en hann lagði síðan upp seinna markið fyrir Inzaghi sem var að skora sitt sextugasta mark í Evrópumótum félagsliða.

„Andrea Pirlo skoraði þetta mark, lagði upp hitt og stjórnaði spilinu á miðjunni. Hann var í einu orði sagt frábær," sagði Ancelotti eftir leikinn.

Í hinum leik riðilsins vann Shaktar Donetsk 2-0 sigur á skoska liðinu Glasgow Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×