Innlent

Rússaflug ógnar farþegaflugi

Óli Tynes skrifar
Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða.
Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða.

Rússnesku sprengjuflugvélarnar sem nú sveima í vaxandi mæli yfir Norður-Atlantshafi tilkynna aldrei um ferðir sínar og skapa því vissa hættu fyrir borgaralegt flug. Flugumferðarstjórar senda farþegavélum þær upplýsingar sem þeir hafa um Rússana og breyta stefnu og flughæð farþegavélanna ef þörf krefur. Rússar eru þeir einu sem senda herflugvélar af stað án þess að tilkynna um þær.

Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða sagði í samtali við Vísi engan vafa leika á að Rússar megi senda herflugvélar sínar á loft með þessum hætti. Þetta flokkist undir ríkisflug og það sé leyfilegt í alþjóðlegu loftrými. Rússar séu þó þeir einu í þessum heimshluta sem slíkt geri. Allir aðrir flugherir tilkynni um sitt flug fyrirfram, eins og um borgaralegt flug sé að ræða.

Þorgeir segir að í tilfelli Rússanna sé treyst á flugheri nágrannaríkja eins og Norðurlandanna og Bretlands, sem tilkynna um og fylgjast með rússnesku vélunum. Ratsjárstofnun hér á landi vakti einnig loftrýmið.

Þorgeir vildi ekki meta hættuna sem stafaði af flugi Rússanna. Það sé ekki í samræmi við reglur Alþjóða flugmálastofnunarinnar. Þar sé ekki gert ráð fyrir flugumferð sem ekki sé tilkynnt um. Reynt sé að vega það upp með samstarfi við aðrar þjóðir sem skiptist á upplýsingum um ferðir Rússanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×