Erlent

Rússar sagðir tilbúnir að afhenda Írönum kjarnorkueldsneyti

Óli Tynes skrifar
Íranska kjarnorkuverið í Bushehr.
Íranska kjarnorkuverið í Bushehr.

Rússar og Íranar hafa náð samkomulagi um afhendingu á eldsneyti fyrir fyrsta kjarnorkuver Írana, að sögn ríkisútvarpsins í Teheran. Afhending eldsneytisins hefur tafist verulega. Rússar segja að það sé vegna þess að Íranar hafi ekki innt af hendi umsamdar greiðslur. Íranar segja hinsvegar að það sé vegna þess að Rússar séu undir miklum þrýstingi frá Vesturlöndum um að hætta við afhendinguna.

Hvað sem því líður er ljóst að Vesturlönd eru ekki hrifin af því að Rússar afhendi kjarnorkuelsneyti við núverandi aðstæður. Menn eru sannfærðir um að Íranar séu að reyna að smíða kjarnorkusprengjur, þótt þeir segi að kjarnorkuáætlun þeirra sé í alla staði friðsamleg.

Bandaríkjamenn eru fremstir í flokki þeirra sem þrýsta á Írana. Aðrir leiðtogar eru hinsvegar alveg jafn lítið hrifnir af þeim möguleika af Íran smíði sprengjur. Í fyrstu stóru ræðunni sem hann flutti um utanríkismál sagði Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands að það væri gersamlega óásættanlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×