Erlent

Búlgaría afpöntuð ókeypis

Óli Tynes skrifar
Frá Sunny Beach í Búlgaríu.
Frá Sunny Beach í Búlgaríu.
Norsk ferðaskrifstofa hefur ákveðið að leyfa ungum viðskiptavinum sínum að afpanta ferðir til Búlgaríu sér að kostnaðarlausu. Fjölmargar fréttir hafa borist um nauðganir og önnur ofbeldisverk gegn Norrænum unglingum í baðstrandarbænum Sunny Beach á Svartahafsströnd landsins.

Norrænir unglingar hafa sótt mjög til Sunny Beach undanfarin ár og það hafa ekki verið skemmtiferðir fyrir þá alla. Norskir, danskir og sænskir fjölmiðlar hafa flutt tíðar fréttir af nauðgunum, ránum og jafnvel morðum. Norska ferðaskrifstofan Apollo hefur því ákveðið að leyfa áhyggjufullum foreldrum að breyta áfangastað barna sinna án aukakostnaðar.

Helen Begby, upplýsingafulltrúi Apollo segir í viðtali við Aftenposten að hún telji að vísu að of mikið sé gert úr ástandinu. Hún telur það ekki verra en á öðrum áfangastöðum í Suður-Evrópu. Engu að síður vilji ferðaskrifstofan koma til móts við foreldra með þessum hætti.

Begby ráðleggur raunar foreldrum að hugsa sinn gang varðandi ferðir barna sinna. Hún segir að ef hún sjálf væri móðir 16 ára unglings myndi hún aldrei leyfa honum að fara einum á suðræna sólarströnd. Ekki frekar en hún myndi leyfa honum að fara einum út á næturlífið í Osló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×