Erlent

Sao Paulo vélin var á fjórföldum lendingarhraða

Óli Tynes skrifar

Myndbandsupptökur af flugslysinu í Sao Paulo í Brasilíu í gær sýna að Airbus flugvélin var á allt að fjórföldum venjulegum lendingarhraða þegar hún snerti flugbrautina. Yfir 200 manns fórust þegar vélin fór til vinstri út af flugbrautinni, við enda hennar, og lenti á bensínstöð. Smellið á „Spila" til þess að sjá myndband af flugvélinni lenda.

Á myndbandinu má sjá flugvél á eðlilegum lendingarhraða. Næst kemur síðan vélin sem að endaði út fyrir brautina. Þar er auðséð að vélin sem fórst var á allt of miklum hraða. Sjónarvottar segjast halda að flugmaðurinn hafi áttað sig á því að hann gæti ekki hemlað á brautinni og hafi því bætt í hraðann og reynt að taka á loft aftur en það ekki tekist.  

Of mikill lendingarhraði er í sjálfu sér uppskrift að vandræðum. Við það bætist að flugvöllurinn í Sao Paulo er alræmdur fyrir að flugbrautin er stutt og mjög hál þegar hún er regnblaut. Flugmenn hafa lýst aðstæðum í Sau Paulo þannig að það sé eins og að lenda á flugmóðurskipi.

Tvær minni flugvélar fóru út af brautinni síðastliðinn mánudag, án þess þó að slys yrðu af. Nýbúið er að malbika flugbrautina. Hinsvegar er ekki búið að rista í hana skorur til þess að vatn renni af henni þegar rignir.

Í febrúar síðasliðnum bannaði alríkisdómari þrem tegundum stórra flugvéla að lenda í Sao Paulo. Því banni var hinsvegar snarlega aflétt í áfrýjunarrétti. Þar var niðurstaðan sú að efnahagsáhrif væru þyngri á metunum en hugsanleg hætta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×