Innlent

Úthlutun lóða í Úlfársdal staðfest í borgarráði

Borgarráð samþykkti í gær úthlutun lóða í Úlfársdal. Á fundinum var lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 3. júlí, þar sem lögð er til úthlutun á byggingarrétti fyrir 4 fjölbýlishús, 11 raðhús, 27 parhús og 65 einbýlishús í Úlfarsárdal. Samtals eru þetta 107 lóðir og 380 íbúðir.

Lóðir í vestari hluta hverfisins eru þegar byggingarhæfar og eru allmargir húsbyggjendur komnir af stað með byggingaframkvæmdir. Í eystri hlutanum verða lóðir byggingarhæfar í október/nóvember. Þar er nú unnið af kappi við gatnagerð og lagnir, og eru þær framkvæmdir á áætlun.

Íbúðahverfið Úlfarsárdalur mun telja um 10.000 manns þegar það verður fullbyggt og áætlun um lóðaúthlutanir gerir ráð fyrir að hverfið byggist hratt upp. Áhersla er lögð á að gerð gangstétta, göngustíga og opinna svæða fylgi uppbyggingarhraða hverfisins, en mikið af þjónustu í hverfinu verður í nálægð við það svæði sem nú hefur verið úthlutað, eins og sjá má á myndum í frétt á heimasíðu Framkvæmdasviðs. Meðal þess sem horft er til er leikskóli, grunnskóli, íþróttasvæði og jafnframt er unnið með hugmyndir um Vatnaparadís í hverfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×