Innlent

Neyslugleðin náði hámarki í júnímánuði

Gissur Sigurðsson skrifar

Íslendingar grilluðu, átu, drukku og gerðu sér glaðan dag sem aldrei fyrr í síðasta mánuði og er þessi mikla neyslugleði meðal annars rakin til góðviðris.

Í samantekt rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að velta í dagvöruverslun var röskum 16 prósentum meiri í nýliðnum júní samanborið við júní í fyrra, á föstu verðlagi, og áfengiskaup voru 13 prósentum meiri á föstu verðlagi. Áfengisneyslan í júní síðastliðnum var heilum 66 prósentum meiri en í janúar síðastliðnum, svo sveiflur í neyslunni séu skoðaðar.

Margt er talið hafa lagst á eitt um gríðarlega neyslu í síðasta mánuði. Óvenju gott veður var nær allan mánuðinn á langfjölmennasta svæði landsins. Talið er að aldrei hafi meira verið grillað, sem sést af því að það er farið að jaðra við skort á ýsmu grillkjöti.

Bjór og léttvínsneysla er víða orðin nátengd grillveislum og fleira fólk var almennt lengur í miðborg Reykjavíkur um helgar en venjulega vegna góðviðris. Þar við bætist að fimm helgar voru í mánuðinum, þar af tvær óvenju miklar ferðahelgar, en ferðalögum fylgir gjarnan meiri neysla, bæði á mat og víni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×