Erlent

Dreamliner þotan kynnt

Guðjón Helgason skrifar

Boeing flugvélaverksmiðjurnar í Bandaríkjunum kynntu í gær fyrstu nýju þotuna sína í 12 ár - 787 Dreamliner kallast hún. Vélin er að mestu gerð úr klefnistrefjum og sögð umhverfisvænni en aðrar þotur. Icelandair hefur pantað 4 slíkar.

Mörg þúsund gestir fylgdust með því þegar þotan var afhjúpuð í Everett nærri Seattle í Bandaríkjunum í gær. Undirbúningur á framleiðslunni hófst fyrir sex árum og er þetta fyrsta nýja þota fyrirtækisins síðan Boeing 777 var fyrst flogið 1995.

Talsmaður Boeing segir 787 Dreamliner þotuna nota minna eldsneyti en aðrar og því gefi hún frá sér tuttugu prósent minna af koltvísýring en aðrar sambærilegar farþegaþotur.

677 og sjö Dreamliner vélar hafa þegar verið pantaðar, þar af fara 4 til Icelandair. Fyrsta tilraunaflug með farþega verður í ágúst eða september og áætlað að Alli Nippon flugfélagið í Japan fari í fyrstu flug samkvæmt áætlun með farþega á næsta ári en fyrsta vélin fer til þess félags. Icelandair fær tvær vélar afhentar 2010 og tvær 2012.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, var viðstaddur kynninguna í gær. Hann segir vélina glæsilega og ekki fyrr notuð þessi efni eða tækni í framleiðslu á þotu.

Umhverfisverndarsinnar eru ánægðir með samsetninguna á Dreamliner þotunni en þeir eru þó varfærnir í yfirlýsingum. Fulltrúar sumra samtaka segja þetta skref fram á við í umhverfismálum en þotan leysi þó ekki vandann vegna útblástur í flugi. Þeir sem gagnrýna framtakið benda á að þar sem rekstrarkostnaður Boeing verði minni lækki verð á flugmiðum - þá fljúgi fleiri og flugferðum fjölgi sem þýði vart minni mengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×