Erlent

Powell reyndi að telja Bush ofan af Íraksstríði

Bush og Powell.
Bush og Powell. MYND/AP
Colin Powell, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt frá því að hann reyndi að telja George W. Bush, bandaríkjaforseta, ofan af því að ráðast inn í Írak. Powell segist þá einnig telja að bandaríski herinn geti ekki komið á stöðugleika í landinu.

„Ég reyndi að forðast þetta stríð," sagði Powell á hátíð í Aspen um helgina. „Ég skýrði út fyrir honum afleiðingarnar af því að ráðast inn í land á þessum slóðum," bætti hann síðan við. Hann segir að nú ríki borgarastyrjöld og telur að eina leiðin til þess að útkljá hana sé með átökum.

Fyrr í morgun var sagt frá því að Bush væri að íhuga að tilkynna áætlun um hvenær hermennirnir myndu yfirgefa landið. Einnig að fækka hermönnum á þeim svæðum þar sem flestir láta lífið.

Ljóst þykir því að raddir efasemdarmanna um stríðið í Írak séu farnar að ná eyrum ráðamanna í Washington. Fjölmargir þingmenn repúblikana hafa einnig komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga og sagt að þeir geti ekki lengur sætt sig við að bandarískir hermenn séu að deyja í Írak.

Í vikunni fara fram umræður um stöðu stríðsins í Írak í fulltrúadeild þingsins. Líklegt er talið að einhverjir þingmenn repúblikana eigi eftir að styðja við kröfur demókrata ef Bush kynnir ekki áætlun um að fækka hermönnum í Írak sem fyrst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×