Erlent

Ný undur valin

Guðjón Helgason skrifar

Þau eru mikilfengleg nýju undrin sjö sem voru kynnt í gær sem þau mikilfenglegustu í gjörvallri veröldinni. Kosið var milli fjölmargra undrastaða á netinu í tvö ár.

Niðurstaðan vakti athygli þegar hún var kynnt í Lissabon í Portúgal í gærkvöldi og voru stórstjörnur víða að fengnar til að kynna undrin, þar á meðal voru Neil Armstrong, tunglfari, og Jose Carreras, óperusöngvari.

Nýju undrin sjö eru Kínamúrinn, klettaborgin Petra í Jórdaníu, Kristsstyttan í Ríó í Brasilíu, hringleikahúsið í Róm, fjallaborgin Matsjú Pitsjú í Perú, Taj Mahal í Indlandi og forna Mayaborgin Chichen Itza í Mexíkó.

Meðal þeirra merku staða sem var hafnað eru frelsisstyttan í Bandaríkjunum, Stonehenge í Bretlandi, óperuhúsið í Sydney í Ástralíu, stytturnar á Páskaeyju og Effel-turninn í París.

Fornu undrin sjö voru öll til fyrir um tvö þúsund árum og voru það grískir fræðimenn sem völdu þar saman píramídana í Gíza, hengigarðana í Babýlon, Seifsstyttuna í Olympíu, Artemismusterið í Efesos, Grafhverlfinguna í Halikarnassos, Kólossos á Ródós og vitann í Faros við Alexandríu. Píramídarnir eru það eina undur gamla sem að mestur stendur enn.

Það var svissneski viðskiptajöfurinn Bernard Weber sem átti hugmyndinni að atkvæðagreiðslunni en hann er einnig þekktur sem safnvörður og kvikmyndagerðarmaður.

Rúmlega hundrað milljón vefsíðugestir greiddu atkvæði á þeim tveim árum sem hægt hefur verið að kjósa og áhuginn því mikill.

Ekki eru allir jafn hrifnir af framtakinu. Fulltrúar frá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hafa gagnrýnt valið. Þeir segja listan sem valið var af hafa verið of takmarkaðann. Stofnunin hefur gefið út eigin lista yfir merka sögustaði þar sem eru sex hundruð og sextíu menningarlega staði að finna og hundrað sextíu og sex náttúruundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×