Erlent

Umsátursástand er enn við Rauðu moskuna í Islamabad

Jónas Haraldsson skrifar
Öryggissveitir á brynvörðum bílum skiptast á skotum við uppreisnarmenn í gær.
Öryggissveitir á brynvörðum bílum skiptast á skotum við uppreisnarmenn í gær. MYND/AFP
Umsátursástand er enn í Islamabad, höfuðborg Pakistan, en öryggissveitir stjórnvalda hafa enn ekki gert áhlaup á Rauðu moskuna.

Talið er að sveitirnar haldi aftur af sér að beiðni Pervez Musharraf, forseta Pakistan. Hann vill ólmur komast hjá því að eitthvað af þeim konum og stúlkubörnum sem enn eru inni í moskunni slasist eða látist í áhlaupi á moskuna.

Næstráðandi í moskunni, klerkurinn Ghazi Abdul Rashid, sagði að þeir sem enn eru inni séu tilbúnir að gefast upp ef þeir fá að fara óáreittir frá moskunni. Stjórnvöld hafa hins vegar sagt að engir samningar verði gerðir. Tilboðið kom eftir að öryggissveitir höfðu sprengt gat á þrjá veggi umhverfis moskuna. °

Tæplega 1.200 hafa þegar yfirgefið moskuna en talið er að enn séu nærri 400 inni í moskunni. Yfirvöld segja líklegt að af þeim séu 50 til 60 vígamenn. Fylgismenn Rashid hafa barist fyrir því að Sharíalög séu tekin upp í og við Islamabad en þeir aðhyllast túlkun talibana á kóraninum. Þeir njóta ekki mikils stuðnings meðal íbúa Islamabad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×