Erlent

Læknar meðal grunaðra

Guðjón Helgason skrifar

Læknir menntaður í Írak og annar frá Jórdaníu eru meðal sjömenninganna sem breska lögreglan hefur í haldi vegna hryðjuverkaárásar í Skotlandi á laugardaginn og bílsprengna sem gerðar voru óvirkar í Lundúnum á föstudaginn. Faðir jórandska læknisins, sem hefur unnið á tveimur sjúkrahúsum á Englandi, segist viss um að sonur sinn tengist ekki hryðjuverkum.

Jórdaninn Mohammed Asha er 26 ára. Hann var handtekinn ásamt 27 ára konu sem talið er að sé kona hans aðfaranótt sunnudags í Cheshire. Ættingjar Asha í heimalandi og læknar sem hann þekkir þar segja hann afburðasnjallan lækni. Ekki geti staðist að hann tengist öfgasamtökum. Faðir hans, Jamil, segist hafa frétt af handtökunni í gegnum fjölmiðla og hefur beið Abdúlla annan, konung Jórdaníu, um að grípa inn í málið. Jamil segir son sinn hafa lokið grunnnámi í Jórdaníu 2004 og farið til Bretlands sama ár til að hefja sérfræðinám í taugaskurðlækningum.

Hinn læknirinn, Bilal Abdullah, er annar þeirra sem handtekinn var á flugvellinum í Glasgow. Hann mun hafa lokið námi í Bagdad í Írak 2004 og fengið skráningu sem læknir í Bretlandi tveimur árum síðar.

Sjö eru nú í haldi bresku lögreglunnar vegna rannsóknar á málinu en árásin í Glasgow og bílsprengjurnar í Lundúnum tengjast að sögn yfirvalda. Heimildir breska ríkisútvarpsins BBC herma að lögregla í Skotlandi hafi verið byrjuð að fylgjast með mönnunum tveimur sem óku logandi bifreið inn á Glasgow-flugvöll áður en þeir hafi látið til skarar skríða. Nánari upplýsingar um það hafa þó ekki fengist.

Svæði í kringum Royal Alexandra spítalann í Paisley hverfinu í Glasgow, þar sem annar árásarmannanna liggur, illa brenndur, var rýmt eftir hádegið í dag og sprengja látin springa þar undir stjórn lögreglu.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur fylgst með atburðum í Bretlandi. Í tilkynningu frá embættinu segir, að farið hafi verið yfir hvort ástæða sé til að grípa til hertra öryggisaðgerða hérlendis. Á þessu stigi séu engar upplýsingar fyrirliggjandi sem gefa ástæðu til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×