Innlent

Menntun flóttabarna

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Átta milljón börn flóttamanna munu njóta menntunar ef áætlun Alþjóðasamtaka Barnaheilla nær fram að ganga. Þegar hafa þau komið á þriðju milljón barna til hjálpar. Neyðarteymi samtakanna fundar í Reykjavík þessa dagana.

Ellefu fulltrúar Alþjóðaskrifstofu Barnaheilla - sem heita upp á ensku Save the children - hafa verið á fundi hér í Reykjavík síðan í gær til að samhæfa aðgerðir samtakanna. Tvö ár eru síðan samtökin komu á laggirnar fimm ára verkefni sem í íslenskri þýðingu heitir Bætum framtíð barna - eða Rewrite the future. Eins og fram kom á fréttamannafundi í morgun eru um fimmtíu milljón barna í heiminum sem hafa neyðst til að hætta skólagöngu vegna átaka og eru á flótta. Samtökin stefna að því að aðstoða átta milljónir þessara barna með því að byggja skóla, þjálfa kennara, greiða kennurum laun, styrkja námsefnisgerð og fleira. Verkefnið er eitt það stærsta sem samtökin vinna að og er nú þegar í 23 löndum. Einna umfangsmest er það meðal íraskra flóttabarna í Sýrlandi og Jórdaníu og sömuleiðis fyrir börn frá Darfúr í Súdan.

"Ef börn fá ekki menntun á meðan þau eru flóttamenn týnist í rauninni heil kynslóð af börnum. Börn eru flóttamenn í sjö ár að meðaltali. Sjö ár án skólagöngu þýðir að þau hafa glatað tækifærinu til menntunar," segir framkvæmdastjóri alþjóðasamtakanna, Rudolph von Bernuth.

Áætlað er að verkefnið kosti rösklega 30 milljarða íslenskra króna. Þegar hefur tekist að fjármagna um helming af þeirri upphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×