Fótbolti

Chelsea komið í efsta styrkleikaflokk

Jose Mourinho getur fagnað því að vera kominn í efsta styrkleikaflokk í Meistaradeildinni
Jose Mourinho getur fagnað því að vera kominn í efsta styrkleikaflokk í Meistaradeildinni NordicPhotos/GettyImages

Í dag var birtur styrkleikalisti yfir liðin í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð og þar hefur enska liðið Chelsea loksins tryggt sér sæti í efsta styrkleikaflokki. Öll fjögur ensku liðin eru nú í efsta styrkleikaflokki, en það eru Manchester United, Liverpool, Arsenal og nú Chelsea. Auk þeirra eru AC Milan, Barcelona, Real Madrid og Inter Milan í efsta styrkleikaflokki og þessi lið geta því ekki dregist saman í riðlakeppninni.

Núverandi Evrópumeistarar AC Milan eru það lið sem er efst á styrkleikalistanum að þessu sinni enda hefur árangur liðsins á síðustu árum verið frábær í Evrópu. Næst koma sigurvegarar keppninnar árið 2006, Barcelona - og Liverpool er þriðja stigahæsta liðið í keppninni.

Jose Mourinho og félagar í Chelsea geta nú fagnað því að vera komnir í efsta styrkleikaflokk og losna þar með við að þurfa að lenda í riðli með stórliðum eins og Barcelona undanfarin ár, en Mourinho hefur oftar en einu sinni bent á að sínir menn hafi þurft að fara erfiðu leiðina í úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×