Innlent

Landhelgisbrjótur á Ísafjarðardjúpi

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Landhelgisgæslan stóð skipstjóra á tíu tonna línubát að ólöglegum veiðum við mynni Ísafjarðardjúps á lokuðu hafsvæði um hádegið í gær. Afar sjaldgæft er að menn brjóti lokanir Hafrannsóknarstofnunar með þessum hætti.

Það var um hádegið í gær sem flugvél Landhelgisgæslunnar SYN flaug yfir Ísafjarðardjúp og kom auga á línubát að veiðum í lokuðu hólfi. Skyndilokun hafði verið auglýst í hólfinu 15. júní en það er gert til að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar. Bannið var við línuveiðum út af Deild í mynni Ísafjarðardjúps.

Lögregla Vestfjarðar tók á móti bátnum þegar hann kom til hafnar í Súðavík á fjórða tímanum í gær. Lögreglan lagði þá hald á veiðarfæri og afla, sem var keyrður inn á Ísafjörð. Skiptstjórinn var síðan yfirheyrður á Ísafirði.

Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum er búið að taka skýrslu af skipstjóranum og fer málið fljótlega til lögreglustjóra sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Dagmar Sigurðardóttir lögmaður Landhelgisgæslunnar, segir sjaldgæft að menn séu teknir að veiðum í hólfum sem Hafrannsóknarstofnun hefur lokað. Þung viðurlög eru við slíkum brotum - ef þau reynast ítrekuð og stórfelld og framin af ásetningi. Ekki er vitað hvort það eigi við í þessu tilviki. Lögin heimila upptöku afla og veiðarfæra við ítrekuðum brotum og sektum allt að átta milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×